Vikan sem leið
Á Alþingi 10. - 16. nóvember 2025.
Á vettvangi stjórnmálanna hófst vikan á afsögn ríkislögreglustjóra. Embættið er vissulega ekki pólitískt en afskipti dómsmálaráðherra af embættinu vikurnar þar á undan og ummæli hennar í kjölfar afsagnarinnar gefur tilefni til þess að víkja nokkrum orðum að þeim gjörningi sem almenningi var boðið upp á í tengslum við afsögnina.
Afsögn en samt eiginlega ekki
Ég var gestur Sprengisands á sunnudeginum fyrir viku. Þar ræddum við Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar og flokksbróðir dómsmálaráðherra stöðu ríkislögreglustjóra í ljósi kaupa embættisins á þjónustu verktaka varðandi að því er virðist alls konar í tengslum við húsnæði embættisins. Fréttir voru fluttar af því að fjárhæðir færu fram úr lagaáskilnaði um útboð. Nokkur umræða var um Jysk verslunarferð ráðgjafans en að öðru leyti lítil gagnrýni á ráðgjafakaupin almennt utan fjárhæðarmörkin. Þó hefði það verið brýnast að ræða gagnsemi utanaðkomandi ráðgjafa almennt, eins og þau mál horfa við skattgreiðendum og einstökum ráðuneytum og stofnunum. Í Spursmálum á föstudag var t.d. upplýst um það að sjálft dómsmálaráðuneytið er ekki saklaust af því að kaupa ráðgjöf um efni sem þó sérþekking er á innan stjórnarráðsins. Þá eru ótaldar styrkveitingar upp á milljónir til, tja, vildarvina?
Allt að einu hafði dómsmálaráðherra látið að því liggja að ráðgjafakaup ríkislögreglustjóra þyrftu að hafa afleiðingar. Hún vísaði sérstaklega til almannaróms þeirri skoðun sinni til stuðnings og þingmenn Viðreisnar, t.d. þingflokksformaður var gerður út af örkinni til að kynda undir aðgerðir. Í Sprengisandi dró Sigmar Guðmundsson ekkert af sér við að grafa undan ríkislögreglustjóra. Ég benti hins vegar á að þótt mögulega hefði verið farið illa með fé, ég er raunar sannfærð um að svo hafi verið, að þá verði það ekki endilega lagt að jöfnu við þvílík brot í starfi að varðað gæti brottvikningu þegar um er að ræða embættismann sem varinn er af lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í þeim efnum þyrfti að hafa í huga t.d. eðli embættisins. Þannig eru bara lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Ég benti hins vegar á að flutningur embættismanna milli sambærilegra embætta væri þekkt lausn þegar skera þyrfti á hnúta í samstarfi manna. Þótt slík lausn feli í sér að embættismaður láti af tilteknu embætti kallar hún ekki á afsögn.
Atburðarásin daginn eftir einkenndist af fáti og ber þess merki að dómsmálaráðherra hafi ekki haft stjórn á aðstæðum. Ríkislögreglustjóri ritar afsagnarbréf. Um leið eru fréttir fluttar af því að hún hefji störf sem almennur sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu. Stuttu síðar kemur í ljós að dómsmálaráðherra lítur svo á að ríkislögreglustjóri verði að halda óbreyttum kjörum eins og hún hafði sem ríkislögreglustjóri, þótt hún hafi sagt af sér.
Dómsmálaráðherra situr nú uppi með fyrrverandi embættismann á háum launum næstu fjögur árin og rúmlega það. Kostnaður skattgreiðenda hleypur á mun hærri fjárhæð en ráðgjöfin umdeilda kostaði. Dómsmálaráðherra telur það gott og gilt en þetta er trúlega þriðji “starfslokasamningurinn” sem hún gerir við embættismann sem ráðherrann vill losna við og sem kostar skattgreiðendur skildinginn (vararíkissaksóknari, lögreglustjórinn í Keflavík). Skattgreiðendur mega gjarnan klóra sér í hausnum yfir þessari stjórnkænsku dómsmálaráðherra.
Um embættismissi tiltekinna embættismanna almennt má annars benda á ágætar hugleiðingar fyrrum vararíkissaksóknara (þess sem nú situr heima á launum út starfsævina skv. ákvörðun dómsmálaráðherra) á Facebook síðu hans undir lok vikunnar. Þar fjallar hann um kröfuna um sjálfstæði ákæruvaldsins sem líkt og dómarar eru að miklu leyti verndaðir fyrir afskiptum framkvæmdavaldsins, m.a. með því að vera skipaðir ótímabundið. Setur hann það í samhengi við lögregluzstjórana sem fara með stærsta hluta ákæruvaldins. Margir sem nú tala fjálglega um að láta hina og þessa taka pokana sína hafa gjarnan haldið á lofti kröfunni um sjálfstæði þessara sömu embætta. Ekki síst núverandi dómsmálaráðherra.
Enginn veit neitt og allir gera bara eitthvað...
…gæti verið yfirskrift stefnu stjórnvalda síðustu ár í loftslagsmálum, og stefnu núverandi ríkisstjórnar. Ég átti orðastað við umhverfis- og loftslagsráðherra um yfirlýst markmið Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Markmiðin hafa breyst stundum ár frá ári, allt frá 29% samdrætti og upp í 50% samdrátt í losun. Hér er um að ræða losun frá því sem tilheyrir svonefndri samfélagslosun (losun frá samgöngum á vegum t.d.). Um leið og ráðherra játaði að markmið Íslands hefðu verið óljós undanfarin áratug og að mörgu leyti óraunhæf kynnti ráðherrann uppfærð markmið Íslannds um.... 50-55% samdrátt í losun! Ég tel fullt tilefni til þess að Ísland fari að draga sig úr þessari vegferð sem hefur bara leitt til þess að almenningur og fyrirtæki eru lúbarin með hverri skattahækkuninni á eftir annarri í nafni loftslagsmála. Ráðherra er mér ósammala, segir það ekki munu gerast á hans vakt.
Málefni fatlaðra á Alþingi
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem samþykktur var á þingi SÞ árið 2006 var undirritaður af Íslands hálfu ári síðar og fullgiltur árið 2016. Með fullgildingu skuldbatt Ísland sig til þess í alþjóðaleg tilliti að uppfylla skyldur sem kveðið er á um í samningnum. Í aðdraganda fullgildingar fór fram skipuleg vinna hérlendis til að tryggja að hægt væri að fullyrða að svo væri, m.a. með breytingu á ýmsum lögum sem lúta að fötluðum.
Í embættistíð minni sem dómsmálaráðherra varð mér þó ljóst að enn væri pottur brotinn þegar kæmi að því að fatlaðir fái notið þeirra réttinda sem samningurinn kveður á um. Þannig mælti ég fyrir frumvarpi sem varð að lögum og tryggir nú fötluðum táknmálstúlka fyrir dómstólum, ekki bara í sakamálum eins og Mannréttindasáttmáli Evrópu kveður á um heldur einnig í einkamálum. Með þessu má halda fram að 13. gr. samningsins um fatlaða hafi verið útfærð eins og frekast er kostur.
Í haust lagði félags- og húsnæðismálaráðherra fram frumvarp um að lögfesta samninginn. Ekkert Norðurlandanna hefur lögfest samninginn. Með lögfestingu alþjóðlegra samninga er horft til þess að gefa mönnum tækifæri á því að byggja kröfur sínar á samningnum og eftir atvikum leita til dómstóla með þær kröfur. Vandinn er hins vegar að alþjóðasamningar eins og samningurinn um réttindi fatlaðs fólks er ekki skýr um hver nákvæmlega réttindin eiga að vera. Hann kjarnar almennar meginreglur um t.d. jöfn tækifæri og aðgengi en eftirlætur ríkjunum að útfæra þetta nánar. Til að lögfestingin hafi einhverja þýðingu þarf löggjafinn að vita nákvæmlega hver útfærslan er á einstökum ákvæðum samningsins. Svo dæmi sé tekið af 13. gr. samningsins sem kveður á um að fötluðum skuli tryggður aðgangur að dómstólum þá má benda á frumvarp það sem ég lagði fram og nefni hér á undan.
Við þinglega meðferð frumvarpsins um samninginn um fatlað fólk töluðu stjórnarliðar þvers og kruss um þýðingu þess að samningurinn yrði lögfestur. Í frumvarpinu kemur skýrt fram að lögfestingin eigi hvorki að hafa í för með sér nein ný efnisréttindi í þágu fatlaðra né kalli hann á auknar aðgeðir eins og þróun þjónustuúrræða eða aukna fræðslu. Þessu get ég verið sammála um fræðilega. Hins vegar taldi ég ámælisvert að ekki hefði verið farið yfir hvert og eitt ákvæði samningsins og það skýrt í greinargerð með hvaða hætti íslensk stjórnvöld líta á að það hafi verið uppfyllt. Ég vona að þau séu öll uppfyllt með núgildandi löggjöf og úrræðum. Ummæli ráðherrans hins vegar um mikilvægi þessarar lögfestingar og geðshræring hennar og gól í þingsal í hvert sinn sem málið hefur borið á góma bendir hins vegar til þess að fiskur liggi undir steini. Þá hafa sveitarfélög miklar áhyggjur af vaxandi kröfugerð sem með réttu eða röngu verði beint að þeim. Undir þetta tóku þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem skiluðu hvorir sínu nefndarálitinu þess efnis að málið væri vanbúið því það hefði ekki verið kostnaðarmetið og það væri brot á reglum um undirbúning stjórnarfrumvarpa. Þingmaður Framsóknarflokksins skilaði áliti og segir í því að það sé "afstaða 1. minni hluta að ekki sé tækt að samþykkja lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fyrr en heildstætt og ítarlegt kostnaðarmat liggur fyrir.", og greiddi svo atkvæði með frumvarpinu.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu til breytingu á frumvarpinu er laut að stofnun nýs samræmingarkerfis (!) og endurskoðunarákvæðis vegna kostnaðarmats. Þessar breytingartillögur voru felldar og studdu Sjálfstæðismenn þá lögfestinguna.
Þingmenn Miðflokksins sátu hjá í málinu vegna þess að málið var, og er enn, vanbúið. Ekki vegna þess að við séum sannfærð um milljóna kostnaður hljótist af fyrir ríki eða sveitarfélög eða að það eigi eftir að kostnaðarmeta. Ég árétta það sem fram kemur í frumvarpinu að ekki verði um nein ný efnisréttindi að ræða. Ráðherra hefði hins vegar verið í lófa lagið að fjalla um það að hvaða leyti Ísland uppfyllir nú þegar skyldur sínar gagnvart samningnum. Það má heita með ólíkindum að ráðherra sem svo mjög brennur fyrir málefnum hafi ekki haft áhuga á að fá botn í það, þótt það hefði tafið þessa lögfestingu, sem engu á skila, um nokkra mánuði.
---
Í vikunni óskuðu hagsmunasamtök fatlaðra eftir því við þingflokka að þeir tilnefndu einn þingmann úr sínum röðum til þess að verða "talsmaður fatlaðra". Var í upphafi ætlast til þess að viðkomandi myndi rita undir yfirlýsingu um að "gæta hagsmuna fatlaðs fólks á Alþingi í hvívetna". Eftir ábendingu var orðalagi breytt en þó er það áfram þannig að á þingmenn eru lagðar skyldu um hagsmunaæslu og fræðslu.
Hér gætir nokkurs misskilnings á eðli þingstarfa og skyldum og réttindum sem alþingismenn bera skv. stjórnarskrá. Samkvæmt henni verða alþingismenn ekki bundnir við neitt nema sannfæringu sína og ekki við neinar reglur frá kjósendum sínum. Þingmenn Miðflokksins munu hér eftir sem hingað til leitast við vinna að hag þjóðarinnar allrar. Óhjákvæmilegt er að líta til sjónarmiða og hagsmuna margra í þeim þeim störfum. Yfirlýsingar um hagsmunagæslu á Alþingi verða hins vegar ekki undirritaðar af þingmönnum Miðflokksins, og það þótt þess óski fatlaðir. Fatlaðir hljóta að geta vel við unað svo mjög var framboðið af þingmönnum sem fögnuðu tækifæri til dyggðaflöggunar.
Í hund og kött
Flokkur fólksins fær hvert málið á eftir öðru samþykkt á þingi þessa dagana. Mig grunar að hinir ríkisstjórnarflokkarnir telji málin svo léttvæg að óhætt sé að afgreiða þau ef það mætti verða til þess að hvíla sönginn um stundarkorn. Málin séu líka þess eðlis að þau kunna að dreifa athyglinni frá brýnni málum sem verr standa. Efnahagsmálunum.
Ekki þarf lengur samþykki annarra eigenda í fjöleignarhúsi fyrir hunda- og kattahaldi. Frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra var eins og sum önnur þingmál frá henni meingallað. Í stað þess að koma þessari breytingu á með sem minnstum skaða kaus hún að kollvarpa ýmsum meginreglum hinna ágætu fjöleignarhúsalaga og gulltryggja að deilur um hunda og ketti verði aldrei hægt að jafna með skynsamlegum hætti.
Ég lagði fram breytingartillögur sem hefðu ekki hindrað framgang málsins efnislega heldur bara tryggt samningsfrelsi sameigenda í fjöleignarhúsi og möguleika hörðustu andstæðinga þessara skemmtilegu dýra til þess að búa í sátt og samlyndi án dýranna. Þær breytingatillögur voru felldar og sat ég því hjá við atkvæðagreiðslu í málinu. Aðrir þingmenn Miðflokksins gerðu það líka, tja, nema þeir sem studdu málið og þeir sem greiddu atkvæði gegn því.
Mér segir svo hugur að ríkisstjórnin, þessi eða sú næsta, hafi ekki bitið úr nálinni með þessa lagabreytingu.