Spurningar til þeirra sem stýra

Því miður hafa væntingar manna um áhrif bóluefna á smit ekki gengið eftir. Greindum smitum hefur fjölgað mjög hratt eftir að yfir 80% fullorðinna urðu fullbólusett. Línurit: covid.hi.is

Vindarnir eru að snúast í Bretlandi þessa dagana. Kjörnir fulltrúar láta aðgerðir í nafni sóttvarna í sívaxandi mæli til sín taka. Í upphafi faraldursins töldust á fingrum annarrar handar þeir þingmenn á breska þinginu sem tjáðu sig yfirleitt um aðgerðirnar og endurteknar lokanir. Í síðustu viku varð sá fáheyrði atburður að 99 þingmenn breska Íhaldsflokksins greiddu atkvæði gegn lagafrumvarpi eigin ríkisstjórnar. Frumvarpið var þó samþykkt með stuðningi stjórnarandstöðu vinstri manna. Þar með þurfa menn að sýna fram á bólusetningu eða neikvætt próf til að komast á stærri viðburði í Bretlandi. Ekki er komin reynsla á fyrirbærið.

Og enn eru boðaðar hertar aðgerðir í Bretlandi. Fyrr í dag sat  ríkisstjórn Bretlands og ræddi til hvaða aðgerða eigi að grípa til í þetta sinn og nú með vísan til Omikron afbrigðisins. Til stóð að kynna nýjar aðgerðir í dag. Rætt var um fjölda- og samkomutakmarkanir. Margir ráðherrar höfðu þó óskað eftir frekari rökstuðningi fyrir hertum aðgerðum á þessu stig og nánari upplýsingum um forsendur SAGE, sérfræðingaráðsins sem ráðleggur stjórnvöldum um sóttvarnir. Nú rétt í þessu var kynnt að engar nýjar aðgerðir yrðu boðaðar í bili en höfðað til skynsemi og ábyrgðar fólks við mannamót á næstu vikum. Andstaða ráðherra og þings við hertari aðgerðir hefur án efa haft áhrif á stefnu forsætisráðherrans. Hann sagði að skortur á upplýsingum um áhrif Omikron afbrigðisins kæmi í veg fyrir frekari aðgerðir að sinni. Þetta er nýmæli og fagnaðarefni.

Kate Andrews blaðamaður á Spectator hafði fyrr í dag hvatt ráðherrana til þess einmitt að spyrja nokkurra grundvallarspurninga. Grein hennar má finna hér.

En lítum okkur aðeins nær. Í morgun skilaði sóttvarnalæknir minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra. Af viðtölum við sóttvarnalækni í dag má ráða að hann leggur þar til harðari samkomu-og/eða fjöldatakmarkanir en í gildi eru í dag og lokun skóla. Ráðherra mun á morgun kynna hvað hann ætlar að gera með tillögur sóttvarnalæknis. Það er fullt tilefni til þess að heilbrigðisráðherra og alls ekki síður aðrir ráðherrar geti svarað spurningum um nauðsyn hertra aðgerða nú. Ekki síst í ljósi lögmætisreglunnar, meðalhófs, reynslunnar erlendis af Omikron, mikillar skuldasöfnunar ríkissjóðs og óljósra fullyrðinga sóttvarnayfirvalda undanfarið um yfirstandandi hættu, fullyrðinga sem dregnar hafa verið til baka.

Spurningar sem blaðamaður Spectator setti fram í dag eiga í grófum dráttum einnig vel við hér á landi auk fleiri spurninga. 

 1.      Sýna einhverjar rannsóknir að Omikron afbrigði Covid sé hættulegra en þau afbrigði sem hafa sveimað hér um undanfarna mánuði?  Hafa sóttvarnayfirvöld tekið með í reikninginn að sérfræðingar sem lengsta reynslu hafa af afbrigðinu telja það hættuminna en önnur afbrigði? Er það í anda meðalhófs að grípa til harðra aðgerða gegn félagslífi og atvinnulífi vegna afbrigðis sem ekki hefur sýnt sig að sé hættulegra en fyrri afbrigði? Sóttvarnalæknir vísar til Danmerkur um „gífurlegan fjölda á dag“ þar og vísar til þess að ef Ísland verði með sama innlagnarhlutfall og Danmörk þá þurfi um 0,7% að leggjast inn sem geri um fimm eða sex tilfelli á dag. Nýjustu upplýsingar frá Danmörku sýna að 0,6% smitaðra af Omikron afbrigðinu leggjast inn en 1,5% af öðrum afbrigðum veirunnar. Innlagnir vegna Omikron eru sem sagt 60% sjaldgæfari en vegna Delta og annarra afbrigða. Svipaða tölfræði má finna í öðrum löndum. Hefur þessi tölfræði verið vegin og metin í ljósi meðalhófsreglu íslenskrar stjórnskipunar?

2.      Um 90% fullorðinna á Íslandi eru margbólusettir. Nú er ljóst bólusetningar koma ekki í veg fyrir smit, eins og sést á meðfylgjandi línuriti frá www.covid.hi.is. Hitt er þó vitað að veiran er ekki jafn líkleg og áður til að valda fólki alvarlegum veikindum eða draga til dauða ef það smitast. Er það þá ekki aðeins tímaspursmál hvenær fólk mun smitast?  Og er raunhæft að þegar smitbylgjur eru farnar af stað, eins og ljóst má vera að eigi við nú, að takmarkanir dragi verulega úr smitum umfram það sem breytt hegðun almennings við fréttir af auknum smitum hefur í för með sér? 

3.      Hefur verið lagt mat á félagsleg áhrif harðari takmarkana? T.d. takmarkanir sem beinast að skólagöngu barna og takmarkanir á veitinga- og öldurhús sem jaðarsetur félagslíf fullorðins fólks?

4.      Hefur verið lagt mat á efnahagsleg áhrif harðari takmarkana? Sviðslistafólk, skipuleggjendur viðburða af ýmsum toga og ferðaþjónustan hafa orðið fyrir fjárhagstjóni vegna núgildandi takmarkana. Engin áætlun hefur verið kynnt um bætur vegna þessa. Hefur verið lagt mat á kostnað ríkissjóðs vegna áframhaldandi tjóns sem núverandi takmarkanir, og auknar, munu leiða af sér? Hafur verið lagt mat á bein og afleidd efnahagsleg áhrif takmarkana til framtíðar? T.d. efnahagsleg áhrif til lengri tíma af röskun skólahalds og félagslífs ungmenna? 

5.      Hvað nákvæmlega hefur verið gert til þess að auka getu Landspítala til þess að ráða við fleiri innlagnir ef til þess kæmi?

6.      Sóttvarnalæknir hefur sagt að með Omikron afbrigðinu séum við í raun með nýja veiru. Er það þá ætlunin að yfirfæra núgildandi takmarkanir í nafni sóttvarna vegna Covid á hvaða smitsjúkdóma sem er sem reka hér að land? Sjá sóttvarnayfirvöld fyrir sér að sérstakar sóttvarnaaðgerðir af þeim toga sem menn leggja til nú verði árlegur viðburður?

7.     Og lykilspurningin hlýtur að vera: Hvað þarf til, til að hægt sé afnema hér Covid takmarkanir og endurheimta eðlilega líf? 


Previous
Previous

Grátbroslegar „skuldbindingar Íslands“ í loftslagsmálum

Next
Next

Ódýrari leiðir í boði í loftslagsmálum