Hafa ekki grænan grun

unsplash-image-rc3nZY_mATo.jpg

Ríkið hefur ekki hugmynd um hve mikið (eða hvort) losun CO₂ minnkar vegna margra milljarða króna sem það veitir árlega í skattaívilnanir til lífeldsneytis og rafbíla.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi sem barst í síðustu viku:

Þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um samdrátt losunar á CO₂ vegna þessara ívilnana er ekki mögulegt að reikna kostnað pr. CO₂ tonn.

Í svarinu kemur fram að innflutningur lífeldsneytis til íblöndunar í hefðbundið eldsneyti hafi notið 2,4 milljarða skattaívilnunar á síðasta ári. Eins og kemur fram í svarinu inniheldur lífeldsneytið minni orku en hefðbundið eldsneyti. Það leiðir til meiri eyðslu í bílvélum, fleiri ferða á bensínstöðvar og aukins innflutnings eldsneytis.

Þessar ívilnanir hafa verið til staðar frá árinu 2011. Nú áratug síðar hefur enginn hugmynd um hvort eða hvaða árangri þær skila. Milljarðar streyma úr landi til kaupa á dýru og orkusnauðu lífeldsneyti en enginn veit hvað fæst fyrir peninginn. Ég lagði þegar árið 2015 fram frumvarp í félagi við Frosta Sigurjónsson, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Willum Þór Þórsson um að stöðva þennan straum fjármuna úr landi. Frumvarpið náði ekki fram að ganga.

Rafbílar fengu á síðasta ári rúmar 5 þúsund milljónir með endurgreiðslu ríkisins á virðisaukaskatti. Að auki eru ekki greidd vörugjöld (sem geta verið 60% á bensínbíl) af innflutningi rafbíla. Þeir bera lægri bifreiðagjöld og engin gjöld á orkuna sem þeir nota. Ekki liggur fyrir hvað þessir milljarðar á milljarða ofan skila miklum samdrætti í losun. Þessar ívilnanir hafa sömuleiðis verið til staðar árum saman án þess að nokkur hafi reynt að átta sig á því hverju þær skili.

Þá kemur að lokum fram í svarinu að vegna þess að ríkið hafi ekki grænan grun um hvaða árangri ofangreindur ríkisstuðningur skilar þá sé ekki hægt að svara því hvort aðrar leiðir eins og endurheimt votlendis eða skógrækt séu hagkvæmari og árangursríkari loftslagsaðgerðir.

Því er reyndar auðsvarað. Aðeins um 4% losunar gróðurhúsalofttegunda á Ísland stafar frá einkabílum. Sú losun mun hverfa í rólegheitunum með nýrri tækni án þess að beita þurfi milljarðaaðgerðum ríkisins.

Previous
Previous

Aukastörf embættismanna

Next
Next

Orkuskipti í orði