Ólögmætar og gagnslausar

Morgunblaðið óskaði eftir áliti mínu á lögmæti sóttvarnaaðgerða í dag, með tilliti til þróunar faraldursins. Af því tilefni lætur Þórólfur Guðnason þau ummæli falla að að hann reki ekki minni til þess að ég hafi nokkrun tímann stutt sóttvarnaaðgerðir sem hafa verið í gangi gegn Covid-19 og því sé þetta álit mitt „kannski ekki nýtt“.

Þessi viðbrögð Þórólfs eru aðfinnsluverð, einkum af tvennum orsökum. Annars vegar er það ekki rétt að ég hafi ekki stutt sóttvarnaaðgerðir. Hins vegar eru þau viðbrögð að vísa í það sem á undan er gengið ekki málefnaleg viðbrögð stjórnvalds við málefnalegri gagnrýni á það sem nú um stundir er gert.

Á foríðu Morgunblaðsins í dag er segir og er haft eftir mér:

„„Mér hef­ur fund­ist mjög mikið hafa skort upp á raun­veru­lega rann­sókn á sótt­varnaaðgerðum, bæði áður en gripið er til þeirra og einkum og sér í lagi eft­ir að þeim er aflétt, þannig að hægt verði að leggja mat á það hvort þess­ar aðgerðir hafi skilað raun­veru­leg­um ár­angri,“ seg­ir Sig­ríður og bæt­ir við að eft­ir til­komu Ómíkron-af­brigðis­ins hafi inn­lagn­ir verið hlut­falls­leg­ar fáar og enn færri lagst inn á gjör­gæslu. 

„Það hafa ekki að mínu mati verið lögð fram sann­fær­andi gögn í dag um að þess­ar aðgerðir séu sett­ar fram af brýnni nauðsyn. Það sem felst í því þegar menn velta því fyrir sér hvort aðgerðirnar séu lögmætar eða ekki er hvort aðgerð sem byggir á reglugerðum með þessum hætti eigi sér raunverulega stoð í lögum og það er mitt að þessar aðgerðir eins og þær eru í dag geri það ekki”. Hún bætir því við að hún er ekki einungis að tala um innanlandstakmarkanir heldur einnig takmarkanir á landamærum og nefnir til dæmis að þar séu mismunandi reglur fyrir bólusetta og óbólusetta. Hún dregur í efa að slík regla eigi sér stoð í lögum. „Þetta er svo mikið grundvallarfrávik frá megnireglum íslenskra laga. Að mínu mati er vafamál í það minnsta að reglugerð um þetta nægi, að minnsta kosti í svo langan tíma sem hún hefur verið í gildi.““

Ég hef frá upphafi faraldursins, bæði sem þingmaður og sem almennur borgari, haft áhuga á því að stjórnvöld fari ekki fram úr sér í viðbrögðum við þessari veiru sem svo skyndilega varð nánast eina fréttefnið um allan heim. Hvorki með óttaviðbrögðum né harkalegum aðgerðum í nafni sóttvarna sem mögulega litlu máli skipta um útbreiðslu smita en hafa umtalsverð beikvæð áhrif á efnahagslífið, lýðheilsu almennt og heilbrigiðskerfið til lengri tíma.

Það er ekki rétt að ég hafi ekki stutt sóttvarnaaðgerðir. Í júní 2020 ræddi ég í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi um skimanir ferðamanna. Þar sagði ég m.a.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því hversu ágætlega stjórnvöld hafa brugðist við Covid-vandanum frá því að hann kom upp í byrjun febrúar. Allar aðgerðir hafa verið teknar með tilliti til meðalhófs og jafnræðis og menn hafa ekki látið geðshræringuna hlaupa með sig í gönur, eins og við höfum séð í mörgum löndum í kringum okkur og jafnvel nágrannalöndum okkar.

En svo verður bara að segja eins og er að stefnumörkun stjórnvalda fór á þessum tíma að taka á sig aðra mynd en þarna er lýst. Æ oftar var gripið til harkalegra aðgerða sem gengu á grundvallarmannréttindi og sömu aðgerðirnar endurteknar án þess að sýnt sé að tilraun hafi verið gerð til að leggja mat á raunveruleg áhrif þeirra. Vel að merkja, flestar þessara aðgerða voru viðbragð við orðnum hlut. Veitingahúsum lokað þegar smit voru þegar orðin útbreidd. Tafsamt ferli tekið upp í Keflavík þegar smit voru þegar orðin landlæg. Og svo framvegis.

Ég hef hvarvetna, t.a.m. að ég held í öllum viðtölum sem ég hef veitt, tekið undir með sóttvarnayfirvöldum um mikilvægi persónubundinna sóttvarna. Eftir að hafa „hlustað á sérfræðinga“ í þessum efnum hvaðan að úr heiminum, og fylgst ágætlega með áhrifum aðgerðanna hér á landi hefur mér fundist blasa við að harðar lokanir hafi skilað litlu umfram það sem sjálfsprottin breytt hegðun fólks í neyðarástandi skilar. Nýleg umfjöllun John Hopkins spítala rennir stoðum undir þessa afstöðu mína. Og í gær heyrði í góðu viðtali á Unherd fjölmiðlinum höfund dönsku Covid-spálíkananna lýsa því einmitt hvernig spálíkönin hefðu þurfa að taka með í forsendur sínar hina breyttu hegðun sem fólk hefur sýnt án þess að kveðið sé á um slíkt með lögum. Þetta varð reyndar strax augljóst í Svíþjóð þar sem vart varð við afar varkára hegðun manna án nokkurra opinberra afskipta. Þótt ég velti upp í dag lögmæti aðgerðanna þá er það auðvitað það sem mestu máli skiptir að það liggi fyrir að þær aðgerðir sem við búum við í nafni sóttvarna skili einhverjum raunverulegum árangri. Það hefur ekki verið sýnt fram á það.

Hitt er svo bagalegra að mínu mati að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bregðist við athugasemdum mínum um lagastoð gildandi reglna með því að vísa í afstöðu mína (reyndar ranglega) frá því fyrr í faraldrinum. Ég á svo sem enga lögvarða kröfu til þess að sóttvarnalæknir svari málflutningi sem ég set fram á opinberum vettvangi. En sé það gert þá hvílir sú skylda á stjórnvaldi að svarið sé málefnalegt, með tillit til gildandi forsendna, ástandsins í dag.

Previous
Previous

Bankasalan

Next
Next

Samhengið skiptir samt máli