Sigríður Á. Andersen

View Original

Færri og skýrari verkefni

Menn hafa lengi reynt að spara í ríkisrekstrinum með flötum niðurskurði. Öllum ríkisstofnunum er reglulega gert að spara um svona 1%, jafnvel 2% ef fjármálaráðherrann vill sýnast mjög sparsamur. Niðurstaðan er jafnan að útgjöldin aukast ár frá ári. Í haust var litið svo á að öllum ráðuneytum hefði verið gert að skera niður um 5-10%. Það hljómaði vel en útgjöldin árið áður höfðu raunar verið aukin um nær 20%. Það var ekkert borð fyrir báru. Alþingi samþykkti því í desember síðastliðnum fjárlög fyrir þetta ár með 150 milljarða króna halla. Flatur niðurskurður er vissulega þægilegur fyrir stjórnmálamenn að því leyti að þeir komast þá hjá því að taka afstöðu til einstakra verkefna. Nú er hins vegar svo komið að það verður ekki um það að ræða, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að halda áfram þessum vinnubrögðum sem tíðkast hafa með flötum niðurskurði. Það sem skiptir máli nú er að endurskoða fjárlögin, hvern einasta lið þeirra,  með það að markmiði að fækka verulega verkefnum. Stjórnmálamenn verða að hafa dug í sér til þess að taka afstöðu með og á móti einstökum verkefnum sem nú eru í höndum ríkisins. Menn geta ekki leyft sér að láta staðar numið við það að gera lítilfjörlegar breytingar á framkvæmdahraða, þjónustustigi eða öðrum þáttum. Sumum verkefnum hins opinbera verður einfaldlega ekki haldið áfram. Það eru ekki til peningar fyrir þeim. Spurningin er bara hvaða verkefni það eru sem ríkið hættir að sinna. Því miður báru þingmenn ekki gæfu til þess að spyrja sig þessarar spurningar nú í desember þegar það var einmitt svo brýnt. Þeir vissu sem var að þá þyrftu þeir helst einnig að svara henni. Það virðist vera þeim flestum um megn.Ný vinnubrögð eru ekki bara nauðsynleg við gerð fjárlaga ríkisins. Ekki er síður brýnt að fjárhagsáætlanir sveitarfélaga taki mið af breyttum og mun verri aðstæðum í íslensku efnahagslífi. Sveitarfélög þurfa að slá af verkefni ef þau eiga að geta staðið undir tiltekinni þjónustu sem þau meta nauðsynlega. Það verður ekki allt gert fyrir alla í þessum efnum.Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. mars 2009.