Bifreiðaeigendur borga brúsann
Getur það verið að bifreiðaeigendur greiði ekki að fullu fyrir vegi og brýr? Getur það verið að útgjöld ríkisins til vegamála og umferðaöryggis séu hærri en tekjur ríkisins af bílum landsmanna?
Morgunblaðið fjallar í dag um svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um skatta og gjöld á bifreiðar, eldsneyti eða annað sem snýr að farartækjum. Umfjöllun Morgunblaðsins kom mér á óvart. Fyrirsögnin „Framlögin mun hærri en gjöldin“ er sláandi og undirfyrirsögnin „Hvatt til upptöku veggjalda“ vakti hjá mér ónot.
Jón Gunnarsson hefur verið lengi talsmaður veggjalda. Ekki held ég að það sé vegna þess að hann sé áhugamaður um aukna skatta per se, hann er það örugglega ekki. Hins vegar sér hann eins og við öll að það vantar nokkuð upp á að vegir hér séu í góðu standi og öryggi vegfarenda í samræmi við það.
Tvennt hef ég hins vegar að athuga við fyrirspurn Jóns og svar fjármálaráðherra. Annars vegar er fyrirspurn Jóns gölluð að því leyti að hún gerir ráð fyrir að ríkið innheimti skatta sem eyrnamerktir eru tilteknum verkefnum. Spurt er um skatta sem lagðir eru á „vegna framkvæmda í samgöngumálum“. Jón ætti að vita að svokallaðir markaðir tekjustofnar eru löngu liðin tíð. Þeir voru meira að segja lagðir af þegar Jón sat í embætti samgönguráðherra.
Hins vegar er svar fjármálaráðherra við spurningu Jóns hálfsannleikur. Ráðherra nýtir sér gallað orðalag fyrirspurnarinnar og leggur fram upplýsingar um tekjur ríkissjóðs sem áður voru sérstaklega markaðar framkvæmdum í vegagerð en eru það ekki lengur. Svo birtir ráðherrann tölur yfir heildarfjárframlög til samgöngumála. Þessi svör borin saman leiða til þess að grunlaus maður dregur þá ályktun að tekjur ríkisins af bíleigendum séu minni en framlög ríkisins til samgöngumála.
Svar fjármálaráðherra er dæmi um upplýsingaóreiðu sem vonandi er ekki sett fram af ásetningi. Auðvitað á ráðherrann að svara því sem skiptir máli í þessu, þótt fyrirspurnin sé gölluð. Hver eru fjárframlög til vegasamgangna í samanburði við skattbyrði bifreiðaeigenda? Nærtækast er að líta til fjárlagafrumvarpsins sem lagt var fram í gær og varðar árið 2026. Hvaða fjárhæðum gerir það ráð fyrir?
Í stuttu máli er tölfræðin eftirfarandi skv. fjárlagafrumvarpinu:
Útgjöld ríkisins til vegamála: Ca 46 mia.
Tekjur ríkisins úr vasa bíleigenda: 17,7 mia (vörugjald af ökutækjum) + ca 10 mia (kolefnisgjaldið sem að mestu leggst á bíleigendur en líka sjávarútveg) + 13,9 mia (bifreiðagjald) + 37,1 mia (km-gjald vegna notkunar bifreiðar og hér er gert ráð fyrir að frv. um km-gjald verði samþ.). Alls eru þetta um 78 mia.
Virðisaukaskattur af bílum, eldsneyti, verkstæðum o.sfrv. er ekki með í þessari tölu yfir skattheimtu af bíleigendum. Ekki heldur virðisaukaskattur sem leggst ofan á vörugjöldin eða kolefnisgjöldin.
Niðurstaðan: Bifreiðaeigendur eru að greiða meira en sem nemur kostnaði við samgöngumannvirki fyrir bíla (og fólk auðvitað).
Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir um 11 milljarða króna hækkun skatta á bifreiðaeigendur. Það er 90 þús. kr. skattahækkun á hvert heimili í landinu. Það er dágóð skattahækkun miðað við að ríkisstjórnin ætlar ekki að hækka skatta.